Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

Vinnum af meiri fagmennsku

MAST hefur nú gengið hart fram á eftir saltfiskframleiðendum og hefur sett bann við fosfatnotkun í saltfisk frá og með áramótum.   Fosföt hafa verið notuð í þessa framleiðslu í áraraðir og meðal annars stuðlað að því að saltfiskframleiðsla okkar Íslendinga hefur verið  hátt metin á mörkuðum í suður Evrópu.  Hafa skal í huga að fosföt eru almennt notuð við framleiðslu í matvælaiðnaði og það er fráleidd krafa að umbreyta einni atvinnugrein á nokkrum dögum með boði og bönnum.  Mjög sennilegt er að þetta geti valdið einhverri verðhjöðnun á fiskafurðum okkar á næstu mánuðum sem land okkur má nú síst við. 

Viðamiklar rannsóknir voru gerðar þegar framleiðsluaðferðum var breytt m.a. með aðkomu Rannsóknarstofnunar Fiskiðnaðarins (nú Matís) og SÍF en ekkert hefur bent til þess að notkun þessara efna sé hættuleg heilsu manna og þá síst í saltfiski.  Eins og við þekkjum þá þarf að útvatna saltfisk áður en hann er matreiddur en þá útvatnast um leið þau fosföt sem að öðrum kosti lenda á pönnunni við matreiðslu á kjöti eða jafnvel öðru frosnu sjávarfangi.  Framsýni og fjárfestingar saltfiskverkenda er að engu höfð með þessari ákvörðun. Hér þarf frekari aðlögun og rannsókna við áður en rokið er í þessar umfangsmiklu breytingar. 

Kannski er þetta bara forsmekkurinn af regluverki Evrópubandalagsins sem hugmyndir eru um að innleiða á allan iðnað á landinu, hverju nafni sem hann kann að nefnast.
mbl.is Bannað að nota fjölfosföt í saltfisk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Framtakssjóður kaupir Vestia

Framtakssjóður Íslands  hefur nú gengið frá samkomulagi við Landsbanka Íslands um kaup á stóru eignarsafni þess síðarnefnda í fjölda fyrirtækja hér á landi.   Öll eiga þessa fyrirtæki það sameignlegt að skuldir þeirra margfölduðust á árinu 2008 þegar gengi krónunar féll að því er virðist að hluta til með aðstoð bankanna.  Hingað til hefur Landsbankinn kynnt fyrri hluthöfum þessara fyrirtækja,  starfsmönnum og fjárfestum að sala þeirra muni fara fram í opnum söluferlum en skyndilega var ákveðið að fara aðra leið með málið, selja eignarhaldsfélagið í einu lagi og verða hluthafi áfram í öllum pakkanum.  Fjármálaráðherra segir það ánægjuefni að það sé að vinnast úr málefnum skuldugra fyrirtækja samhliða þessari sölu og að salan  hindri erlend uppkaup á fyrirtækjum á Íslandi.  Úr hverju er eiginlega verið að vinna með þessari sölu ?  Er ekki bara verið að hræra í sama pottinum og færa fé úr lífeyrissjóðunum inn í bankana ?  Það þarf bara að segja hlutina eins og þeir eru.

Það sem ég hef áhyggjur af samfara þessari sölu er hvort hér sé á ferðinni einhver skýr stefna kaupanda um hvað sé verið að kaupa,  hversvegna og hvert eigi að fara með þessi fyrirtæki.  Það er ljóst að þegar banki yfirtekur fyrirtæki í óskyldum rekstri er honum nokkur vandi á höndum og því er sala í einum pakka afar þægileg lausn fyrir nýjan bankastjóra,  losa sig við pakkann með einu pennastriki og setja vandamálið í fangið á „almenningi“.  Forstjóri framtakssjóðs lýsti því fyrir landsmönnum í Kastljósi í síðustu viku að hann hefði fengið símtal frá nýja bankastjóranum þegar hann var að ganga á Esjunna og hugmyndin hafi þar verið borin upp og hefði honum bara litist vel á.   Mér finnst þetta frekar einkennileg stefnumörkun sjóðsins að fara  með fjármuni lífeyrissjóðanna með þessum ætti.  Erum við ekkert að læra af því sem á undan er gengið ?

Flest ef ekki öll fyrirtæki  á landinu þurfa á þessum tímum mikla umhyggju, festu og útsjónarsemi til að lifa af þær hremmingar sem nú eru að ganga yfir. Neysla almennings er í lágmarki, byggingariðnaður er allur í miklum kröggum, verkfræðingar og arkítektar eru að flýja land eða að sækja verkefni á erlenda grundu, framkvæmdir innan fyrirtækjamarkaðarins eru í lágmarki.  Bauhaus í Danmörku hefur nýlega lýst því yfir að þeir séu nú aftur farnir að huga að því að koma inn á byggingarvörumarkaðinn þannig að Húsasmiðjan á von á nýrri og óþekktri samkeppni. Það er væntanlega of  seint fyrir Steingrím að stöðva þá núna þegar búið er að byggja húsið.  Án þess að ég hafi djúpa þekkingu inn í upplýsingatækniiðnaðinn  tel ég mig vita að mörg fyrirtæki hafa dregið úr fjárfestingum í upplýsingatækni og slegið á frest að skipta um bókhaldskerfi samhliða almennum samdrætti í rekstri,  skattahækkunum og almennri óvissu. Hefur framtakssjóður lagt mat á alla þá áhættu sem slíkum kaupum fylgir. Óvissan og óstöðugleikin er ennþá svo mikill að íhuga þarf vandlega að hverri einstakri fjárfestingu en ekki hlaupa til og kaupa upp fyrirtæki í kippum.   Út frá sjónarmiði fyrirtækjanna er vissulega gott að eigandinn sé sterkur fjárhagslega og sé með djúpa vasa, það þarf bara miklu miklu meira til. 

Þröngur, kraftmikill og áhugasamur eigendahópur sem hefur vit á þeim rekstri sem félögin eru í eða geta stutt á annan hátt við reksturinn er klárlega miklu betri kostur fyrir fyrirtækin sjálf, starfsfólkið sem hjá þeim vinnur og ekki síst fyrir atvinnulífið í heild sinni. Þar breytir engu hvort eigandinn sé íslenskur eða erlendur, fagmennska og fagkunnátta eru verðmæti sem meiga ekki gleymast í þessari umræðu.  

Öll þau fyrirtæki sem falla undir kaup framtakssjóðsins gengu vel þegar þau voru í einkaeigu sbr. Húsasmiðjuna, Plastprent og ákveðnar einingar innan Teymis. Ég þekki lítið til reksturs Icelandic en þó hef ég lesið mér til um það að hlutafjárkaup í því fyrirtæki hafa undanfarin ár ekki verið arðbær. Vonandi er mönnum að takast að snúa rekstrinum þar við en bæði er afurðarverð um þessar mundir nokkuð gott en hætt er við því að það vari nú ekki til eilífðar.  Neysla á fiskafurðum okkar í suður evrópu hefur heldur verið að dragast saman og neytendur á mörgum mörkuðum hafa verið að snúa sér frá sjávarfangi yfir í ódýrari neysluvörur.  Vonandi er sú breyting bara tímabundin.Fyrirtækin voru flest rekin af einstaklingum eða fjölskyldum sem byggðu þau upp frá grunni, þekktu alla innviði og höfðu gott hugvit á þeim rekstri sem félögin voru í.   Þegar fagfjárfestar og hlutabréfamarkaður kom til, losnaði um festuna sem fyrirtækin  þurftu, dýrmæt þekking tapaðist út úr þeim þegar frumkvöðlarnir fóru frá þeim. Sum þessara fyrirtækja voru seld einu sinni eða oftar og við hverja sölu gíraðist verðið upp og engu var svo viðbjargað þegar skuldapakkinn margfaldaðist.  Gott aðgengi að fjármagni varð líka til þess að mörg fyrirtæki fóru óígrundað í rangar fjárfestingar og uxu of hratt.Ég á erfitt með að sjá hvernig við vinnum úr málefnum íslensks atvinnulífs með sjóðsvæðingu og því að reisa múra í kringum landið með þeim skilaboðum að við séum ennþá reiðubúin að fá lánað fjármagn erlendis frá en hér megi útlendingar ekki fjárfesta.  Það virðist vera að stjórnmál, bankastarfssemi og sjóðsvæðing rekist áfram hálf stjórn- og stefnulaust og lýðurinn á að borga eina ferðina enn ef dæmið gengur ekki upp.  Þá verður væntanlega hægt að gefa út fleiri bindi af því sem ég vil kalla „nýju íslendingasögunum“ en gjarnan er nefnt rannsóknarskýrslum í daglegu tali og moka svo yfir mistökin með slíkri útgáfu.  

Ég hef a.m.k. nokkrar áhyggjur af því að við þetta sé ekki rétta leiðin, hvorki fyrir lífeyrissjóðina og sjóðsfélaga né fyrir fyrirtækin sjálf.  Tíminn hlýtur að leiða það í ljós.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband